Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 181/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 181/2023

Miðvikudaginn 7. júní 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 30. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. janúar 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 10. janúar 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 12. janúar 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni frá Tryggingastofnun ríkisins, sem var veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 24. janúar 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. mars 2023. Með bréfi, dags. 5. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. apríl 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. apríl 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi óski eftir því að ákvörðun Tryggingastofnunar vegna umsóknar hennar um örorku verði endurskoðuð.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati, dags. 12. janúar 2023. Í kærðri ákvörðun hafi kæranda verið synjað um örorkumat þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í niðurlagi 2. mgr. 18. gr. komi fram að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Þar segi meðal annars að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.

Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Í læknisvottorði eigi að koma fram hvort búast megi við að færni aukist með læknismeðferð, eftir endurhæfingu eða með tímanum. Í gögnum sem berist til Tryggingastofnunar geti verið óvissa um hvort meðferð/endurhæfing sé að fullu lokið. Ef heildarmat Tryggingastofnunar, út frá öllum fyrirliggjandi gögnum, bendi til að endurhæfing sé ekki fullreynd, þá sé synjað um örorkumat.

Með lögum nr. 124/2022 hafi ákvæðinu um endurhæfingarlífeyri verið breytt þannig að heimil lengd endurhæfingarlífeyris sé 36 mánuðir. Heimilt sé að framlengja um 24 mánuði eða samtals í 60 mánuði, þ.e. í fimm ár.

Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. sömu laga.

Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda sé ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá tiltaki 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar. Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar.

Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í máli þessu.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 10. janúar 2022. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 12. janúar 2023, á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Heilsufarsvanda kæranda sé lýst í læknisvottorði, dags. 19. desember 2022, frá B heimilislækni sem hafi stundað hana frá fæðingu. Kærandi sé ung og barnlaus og hafi verið í tengslum við Ráðgjafar- og greiningarstöð frá því að hún var barn. Skýrsla greiningarstöðvarinnar frá að því kærandi var tæplega X ára sýni ýmiss einkenni einhverfu og lága greind sem og ýmis þroskafrávik. Sálfræðingur, barnalæknir, þroskaþjálfi, sérfræðingur og félagsráðgjafi hafi komið að greiningunni og skoðun. Forsaga málsins sé sú að áhyggjur af kæranda hafi vaknað  snemma og á X aldursári hafi hún verið athuguð af sálfræðingi og við athugun hafi komið fram þroskafrávik. Við X ára aldur hafi verið lagt mat á vitsmunaþroska hennar sem hafi sýnt töluverð frávik og heildartala greindar hafi verið 62. Athugun hafi farið fram á Ráðgjafar- og greiningarstöð við X ára aldur og hafi hún greinst með vitsmunaþroska á tornæmisstigi. Við X ára aldur hafi hún farið í athugun hjá skólasálfræðingi vegna vaxandi einkenna einhverfu. Niðurstöður á greindarprófi hafi sýnt meiri frávik en áður og hafi vandi verið bæði í samskiptum, hegðun og athygli. Allt hafi bent til einkenna á einhverfurófinu.

Skert félagsfælni og þroskahömlun hafi valdið kæranda kvíða og skertri félagsfærni frá því í grunnskóla. Hreyfihömlun hafi einnig hamlað henni frá unga aldri sem og lélegur félagsþroski.

Samkvæmt ráðgjafa og þroskaþjálfa í málefnum barna hjá félagsmiðstöð Reykjavíkurborgar sé talin þörf fyrir langvarandi stuðning í daglegu lífi kæranda. Kærandi hafi verið í námi á starfsbraut í framhaldsskóla og sé námið aðlagað að fötluðum ungmennum. Kærandi hafi verið með stuðningsfjölskyldu og einstaklingsstuðning á tímabilum út frá málaflokki fatlaðs fólks.

Örorkulífeyrir sé að mati sérfræðinga Tryggingastofnunar ekki rétta úrræðið fyrir einstaklinga í sambærilegri stöðu og kærandi sé í og fagfólk úr heilbrigðisgeiranum muni aðstoða við það framvegis samkvæmt ráðum sérfræðinga Tryggingastofnunar. Ýmsar leiðir séu færar í því sambandi og ákjósanlegt sé að fagfólk innan heilbrigðiskerfisins vísi kæranda á þau úrræði sem séu talin heppilegust. Tryggingastofnun leggi áherslu á að stofnunin leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Hvert mál sé því metið sjálfstætt af sérfræðingum Tryggingastofnunar og metið í samræmi við gildandi lög og reglur út frá fyrirliggjandi gögnum.

Tryggingastofnun sé í ákvörðunum sínum bundin af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveði á um að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis. Læknateymi og aðrir sérfræðingar Tryggingastofnunar telji að niðurstaða málsins sé í samræmi við þá venju sem skapast hafi við úrvinnslu sem eigi stoð í gildandi lögum og reglum.

Endurhæfing sé ekki fullreynd í tilviki kæranda og það sem komi fram í læknisvottorðum og öðrum gögnum málsins styðji við þá ályktun. Það skuli skoðað með hliðsjón af reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, en þar segi að Tryggingastofnun skuli meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt sé upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla mögulega að aukinni starfshæfni í framtíð einstaklings, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Niðurstaða mats Tryggingastofnunar sé sú að endurhæfing kæranda hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt því mati uppfylli kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing hafi átt sér stað. Ef umsókn um endurhæfingarlífeyri og staðfesting á skólavist berist, verði málið skoðað með tilliti til endurhæfingarlífeyris.

Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum í þessum skilningi sé átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu. Tryggingastofnun bendi á reglur um endurhæfingarlífeyri ásamt staðfestingu á skólavist og að málið verði skoðað á ný með tilliti til nýrrar umsóknar um endurhæfingarlífeyri.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu, sé rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun byggi á fyrri sambærilegum fordæmum fyrir úrskurðarnefndinni þar sem staðfest hafi verið að stofnunin hafi heimild til að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standi til boða áður en til örorkumats komi. Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 12. janúar 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og aðrar tengdar greiðslur.

Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Tryggingastofnun skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í máli þessu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. janúar 2023 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt þágildandi 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt þágildandi 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt þágildandi 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 19. desember 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„ANXIETY DISORDER/ANXIETY STATE

MODERATE MENTAL RETARDATION

ATYPICAL AUTISM

ACNE VULGARIS“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir í vottorðinu:

„A er greind hjá Greiningarstöð ríkisins með þroskahömlun með greindarskerðingu og ódæmigerða einhverfu. Veldur þetta kvíða ástandi og skertri félagsfærni. Hún var í grunnskóla í C og fékk þar sérstaka námsskrá , fylgdi ekki aðalnámskrá. Er núna búin að vera í 1,5 ár í F.

Síðan haustið 2007 voru uppi áhyggjur um þroska A , grunsemdir fóru að vakna á leikskólanum. Fór í athugun hjá miðstöð heilsverndar barna í apríl 2008 og kom þá í ljós að stúlkan var lin og klunnaleg í hreyfingum og töluvert undir aldurviðmiðunum hvað varðar skyn-og hreyfiþroska. Mælt var með markvissri alhliðahreyfiþjálfun heima og á leikskóla og einnig að færi í sjúkraþjálfun. Fór einnig í málþroskamat hjá talmeinafræðingi í ágúst 2008. Það kemur í ljós seinkun á almennum þroska samkv. Bayleys þroskaprófi og á Reynell málþroskaprófi mælist þroskatalan 74 við X ára aldur sem er lágt skor. Málþroskafrávik eru til allra þátta málþroskans. Einnig eru talsverð framburðarfrávik. Vantar líka uppá heyrnræna úrvinnslu. Eftir það verið reglulega í talþjálfun og málörvun markvisst undir leiðsögn talmeinafræðings.

Var send í athugun hjá sálfræðingi á vegum þjónustumiðstöðvar og þar athuguð X ára. Var hjá D sálfræðing og sýndi WPPSI-R próf sem sýndi mjög lág skor , munnl hluti 61 stig, verklegur hluti 74 og heildarskor 62 . Greindarpróf er því að mæla hana með verulega skerta greind miðað við jafnaldra.

Þá fór A í hreyfiþroskapróf hjá sjúkraþjálfara fyrir 2015 sem sýndi áfram seinkaðan lélegan hreyfiþroska . Nýjasta athugun talþjálfara voru gerð í byrjun árs 2014 og er málþroskatalan heldur lægri en áður eða um 40.

Var síðast hjá Greiningarstöð Ríkisisns 2016. sem sýndi verulegan autisma og greindarskerðingu.“

Lýsing læknisskoðunar í vottorðinu er svohljóðandi:

„Hægar hreyfingar. Tjáir sig lítt í orðum , móðirin hefur orð fyrir henni. Hún tjáir sig mest í já og nei eftirspurningum. Slælegur augnkontakt. Ekki fær að gefa neina sjúkrasögu sjálf.

Er með slæma acne núna við skoðunina í andliti.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. maí 2022 og að ekki megi búast við að færni geti aukist. Í athugasemdum segir meðal annars:

„Sé ekki fyrir mér að þessi stúlkas geti nokkrurn tíma skilað vinnufærni til fræmfærslu. Gæti unnið mögulega euitthvað hlutastarf á vernduðum vinnustað. Ekki sé ég fyrir mér að Virk mundi geta hjálpað henni til vinnufærni.

Enginn möguleiki á sálfræðimeðferð eða lyfjameðferð til að gera hana vinnufæra.

Hef skoðað hana í dag og niðurstaðan er augljós.“

Meðfylgjandi kæru var athugun fagsviðs eldri barna hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, dags. 12. ágúst 2016. Þar kemur fram í niðurstöðu:

„[…]

A er oft óörugg í skólanum, kvíðir nýjum aðstæðum og verður auðveldlega hrædd. Hún er dugleg að tjá sig í teikningum og útskýra á þann hátt líðan sína. Mat á vitsmunaþroska (WISC-IV prófið) gefur til kynna þroskastöðu á stigi vægrar þroskahömlunar og aðlögunarfærni stúlkunnar er á sama hátt skert. A þarf mikinn stuðning og aðhald í daglegu lífi og skilaboð til hennar þurfa að vera skýr og einföld. Athugun með tilliti til einhverfu (ADOS-2) sýndi að einkenni stúlkunnar fara yfir greiningarmörk fyrir þá röskun og í ljósi þroskasögu á greiningin ódæmigerð einhverfa best við. Að auki sýnir A töluverð einkenni kvíða og óöryggis og þarf að taka mið af því í allri vinnu með henni.

[…]

A er því með víðtæk frávik í taugaþroska og þarf öflug stuðningsúrræði öll sín þroskaár.“

Meðfylgjandi kæru var einnig bréf E, ráðgjafa í málefnum fatlaðs fólks, dags. 27. mars 2023. Í bréfinu segir:

„[…]

Að mati ráðgjafa, þá er A í þörf fyrir langvarandi stuðning í daglegu lífi. Hún stundar nám á starfsbraut framhaldsskólans í F en þar er námið aðlagað fyrir fötluð ungmenni, sjá nánar greinargerð frá F. A hefur ekki náð að fylgja jafnöldrum sínum eftir í þroska og með reglulegum athugunum hjá Félagsþjónustu og 3ja stigs stofnun (GRR) er það staðfest að hún mun þurfa aðlögun m.a. tengt námi og starfi í framtíðinni. Verið er að setja í ferli umsókn fyrir A um húsnæði fyrir fatlað fólk þar sem hún mun þurfa stuðning til að geta haldið heimili og vera þátttakandi í samfélaginu. Eins og TR vísar til í bréfi sínu að endurhæfing sé ekki fullreynd fyrir A, þá er það mat ráðgjafa að endurhæfing mun ekki auka starfsgetu A en með viðeigandi og viðvarandi stuðningi gæti hún átt möguleika á því að sinna hlutastarfi í gegnum Atvinnu með stuðningi.“

Meðfylgjandi kæru var þar að auki bréf G, fagstjóra starfsbrautar F. Í bréfinu segir:

„[…]

A sækir eingöngu tíma á Starfsbraut.

Nemandinn ferðast á milli heimilis og skóla með Ferðaþjónustu Reykjavíkurborgar. Kennsla A fer fram í fámennum hópum og tekið er tillit til þess að nemandinn þolir illa hávaða og læti. A sýndir ekki mikið frumkvæði í samskiptum við aðra nemendur og tengist þeim takmarkað. Hún þarf mikið utanumhald og mikla hvatningu í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Aa er mjög félagslega einangruð og nýtir enga þjónustu utan skóla.

Það er með öllu óskiljanlegt að A hafa fengið höfnun á örorkubótum. Ég hvet til að málin verði endurskoðuð og ekki síst út frá félagslegum aðstæðum stúlkunnar. Mikilvægt er að tekið sé tillit til stöðu A og að hún fái öll þau tækifæri sem henni standi til boða innan sem utan skóla.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. þágildandi 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki farið fram. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi er með varanlega fötlun sem mun hafa áhrif á starfsgetu hennar til frambúðar. Í fyrrgreindu læknisvottorði B, dags. 19. desember 2022, kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. maí 2022 og að ekki megi búast við að færni aukist. Fram kemur það mat læknisins að kærandi geti ekki skilað vinnufærni til framfærslu en hún gæti mögulega unnið hlutastarf á vernduðum vinnustað. Í bréfi E, ráðgjafa í málefnum fatlaðs fólks, dags. 27. mars 2023, kemur fram að kærandi gæti sinnt hlutastarfi þótt endurhæfing muni ekki auka starfsgetu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni, þrátt fyrir að hún nái hugsanlega ekki aukinni starfsgetu. Fyrir liggur að kærandi er mjög ung að árum og hefur ekki látið reyna á endurhæfingu. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. janúar 2023, um að synja kæranda um örorkumat.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum